Hinn guðdómlegi gleðileikur

desember 27, 2009
“Hinn guðdómlegi gleðileikur um fæðingu Jesú Kristí,” var fluttur í Borgarnesi í kvöld, hinn þriðja dag jóla. Þetta er í annað sinn sem þetta er gert en Kjartan Ragnarsson hefur haft veg og vanda að uppfærslunni. Ásamt honum samdi Unnur Halldórsdóttir verkið sem allt er flutt í bundnu máli.
 
Dagskráin hófst með bænastund í Borgarneskirkju og síðan var gengið fylktu liði með kyndla að Tónlistarskóla Borgarfjarðar þar sem fjórir tenórar sungu jólasálm á svölum hússins. Þeir sem sungu voru Snorri Hjálmarsson, Höskuldur Kolbeinsson, Olgeir Helgi Ragnarsson og Kristján Magnússon.Hlutu þeir lof í lófa.
Síðan var gengið áfram að Menntaskóla Borgarfjarðar og helgileikurinn sýndur þar í hátíðarsalnum. Alls tóku þrír kórar þátt í flutningnum auk margra áhugaleikara sem þekktir eru fyrir allt annað en leik í sínum daglegu störfum. Má þar nefna vitringana þrjá sem leiknir voru af rektorunum Ágústi Sigurðssyni og Ágústi Einarssyni auk skólameistara menntaskólans, Ársæls Guðmundssonar.Gísli Einarsson útvarps- og sjónvarpsmaður lék hinn illa Heródes af sannfæringarkrafti og Theodór Þórðarson yfirlögregluþjónn lék Ágústínus keisara. Í sýningarlok sungu gestir og leikarar saman jólasálminn eina og sanna, Heims um ból.
 
Allir þeir sem stóðu að sýningunni eiga þakkir skilið fyrir þetta frábæra framtak og fallega samverustund.
 
Ljósmyndir: Guðrún Jónsdóttir

Share: