Hundrað ár í Borgarnesi

desember 27, 2010
Skömmu fyrir jól minntist Vegagerð ríkisins hundrað ára starfsafmælis í Borgarnesi en það var árið 1910 sem Guðjón Bachmann brúasmiður og verkstjóri fluttist í Borgarnes og hóf þar störf við vegagerð. Af þessu tilefni afhenti stofnunin Byggðasafni Borgarfjarðar líkan af gömlu Hvítárbrúnni, sem þótti á sínum síma mikið verkfræðiafrek og er enn mikil héraðsprýði. Líkanið er í hlutföllunum 1:42 og er smíðað af Erling M. Andersen.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ávarpaði samkomuna og sagði m.a. að þótt menn vissu hvenær starfsemin hefði hafist í Borgarnesi lægi ekki alveg fyrir hvenær formleg vegagerð (nú starfsemi Vegagerðar ríkisins) hefði hafist í landinu, en líklega væri það ekki löngu fyrr. Magnús V. Jóhannesson umdæmisstjóri Vegagerðarinnar flutti ræðu þar sem hann fór einnig yfir söguna. Nefndi hann m.a. tvo vegaverkstjóra sem störfuðu í Borgarnesi, þá Guðjón Bachmann og Ara Guðmundsson. Að lokinni athöfn stilltu nokkrir afkomendur þeirra sér upp til myndatöku. Á myndinni eru frá vinstri: Ómar Arason, Sigvaldi Arason, Hjördís Karlsdóttir (barnabarn Guðjóns), Unnsteinn Arason, Hólmsteinn Arason og Guðmundur Arason.
 
Að auki flutti Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar ávarp og að lokum Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss.
Ljósmyndir: Jakob Hálfdanarson.
 

Share: