Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2009 var lögð fram til fyrri umræðu 11. desember s.l. Hún verður tekin til seinni umræðu 8. janúar n.k.
Í forsendum áætlunarinnar er gert ráð fyrir að útsvarstekjur lækki sem og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ráðgert er að skatttekjur sveitarfélagsins lækki um rúmlega 7% og verði 1663 milljónir. Gert er ráð fyrir að meðalverðbólga á árinu verði 10% og íbúafjöldi verði óbreyttur. Launanefnd sveitarfélaga hefur lokið kjarasamningum við nær alla hópa starfsmanna og leiða þeir til töluverðra hækkana á launagreiðslum eða um 20.300 kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá flestum starfsmönnum.
Gjaldskrár sveitarfélagsins munu í flestum tilfellum hækka um 6 til 8%. Gjaldskrár mötuneyta í leik- og grunnskólum munu hækka um 15% en almennar kostnaðarhækkanir hafa hins vegar verið mun hærri.
Til að mæta samdrætti í tekjum verður gætt ýtrasta sparnaðar í rekstri sveitarfélagsins og í einhverjum tilfellum verður þjónusta skert. Í áætlun eru fjárveitingar til félagsþjónustu og fræðslumála hærra hlutfall af skatttekjum á næsta ári en á yfirstandandi ári, en þrátt fyrir það er lagt til að hagrætt verði í rekstri grunn- og leikskóla. Þetta mun m.a. hafa áhrif á þjónustu leikskóla en gert er ráð fyrir að opnunartími verði styttur og að skólarnir loki kl. 16:15 í stað 17:15 eins og áður var. Þetta er m.a. gert vegna þess að fækkað hefur þeim foreldrum sem nýta sér opnun leikskóla á milli 16:00 og 17:00. Þessar breytingar munu koma til framkvæmda 1. apríl n.k. Þá er gert ráð fyrir að starfsmannafundir í leikskólum færist inn í dagvinnutíma sem þýðir að 7 daga á næsta ári verður skólunum lokað eftir hádegi.
Fjárveitingar til menningarmála, íþrótta- og æskulýðsmála, skipulags- og umhverfismála og reksturs sveitarstjórnar og skrifstofu munu lækka. Megináhersla hefur verið lögð á lækkun vöru- og þjónustukaupa auk þess sem dregið verður úr yfirvinnu starfsmanna eins og kostur er. Breytingar á opnunartímum og starfsemi einstakra stofnana mun í nokkrum tilfellum hafa áhrif á starfshlutfall einstakra starfsmanna. Þetta á fyrst og fremst við um leikskóla- og tónlistarskóla. Þegar hefur verið samþykkt að laun sveitarstjórnar og sveitarstjóra munu lækka um 10% auk þess sem styrkir til sveitarstjórnarmanna vegna aksturs falla niður. Þessi breyting þýðir að dregið verður verulega úr kostnaði við rekstur sveitarstjórnar.
Loks verður samdráttur í framkvæmdum sveitarfélagsins en gert er ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir um 100 milljónir og eru framkvæmdir við leikskóla á Hvanneyri stærsti framkvæmdaliðurinn. Hins vegar eru bundnar vonir við að heimild fáist til að byggja við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi á árinu og yrði það afar stór framkvæmd sem að hluta yrði fjármögnuð af sveitarfélaginu.
Þrátt fyrir að gripið hafi verið til ýmissa sparnaðaraðgerða í rekstri Borgarbyggðar þá er gert ráð fyrir rúmlega 80 milljón kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins árið 2009. Í áætlun er gengið út frá að ný lántaka og afborganir eldri lána verði nokkurn veginn í jafnvægi.
Ljóst er að einhverjar breytingar kunna að verða á áætlun á milli umræða í tengslum við ný fjárlög sem eru þessa dagana til umræðu í Alþingi. Fjárlögin ráða miklu um rekstrarforsendur sveitarfélaga þar sem útsvarsprósenta og framlög Jöfnunarsjóðs hafa mikil áhrif á tekjur sveitarfélagsins.