Jólastund í Mími ungmennahúsi í Borgarnesi

desember 21, 2007
Það var kátt á hjalla í ungmennahúsinu síðasta miðvikudag þegar ungar mæður í Borgarbyggð hittust þar og áttu saman jóla-mömmumorgun með ungana sína. Mæðurnar hafa verið að hittast þarna í vetur á miðvikudagsmorgnum og hefur þátttaka verið góð. Haldnir hafa verið fyrirlestrar sem tengjast uppeldinu t.d. um svefn ungabarna og ungbarnanudd.
Svo er auðvitað bara notalegt að hittast og ræða málin og eiga notalega stund saman um leið og reynslu er miðlað mæðra á milli.
Eftir áramót er ætlunin að fá fulltrúa úr stjórnsýslunni og ræða dagvistunarmál sveitarfélagsins auk þess sem er fyrirhugað að hafa fyrirlestur um mataræði ungabarna þann 30. janúar næstkomandi.
Allar ungar mæður eru velkomnar í ungmennahúsið á miðvikudögum kl. 10.30 – 12.00. en þó verður lokað á milli jóla og nýárs.
Á myndinni sjáum við kát ungabörn sem voru að æfa sig fyrir jólin í ungmennahúsinu við Kveldúlfsgötu.
Myndir með frétt tók Geirlaug Jóhannesdóttir.
 
 

Share: