Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2013 gerir ráð fyrir því að rekstur sveitarfélagsins verði í jafnvægi á árinu. Álagningaprósenta fasteingskatts og lóðaleigu er óbreytt, leikskólagjöld verða sömuleiðis óbreytt en aðrar gjaldskrár hækka í samræmi við verðlagsbreytingar. Áfram verður unnið að því að bæta þjónustu við íbúa og má þar nefna innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, þjónustu við aldraða, styttingu á sumarlokun leikskóla og meiri stuðningur og stóraukið samstarf við íþróttahreyfinguna. Auknu fjármagni verður varið til viðhalds eigna og áætlað er að verja um 100 milljónum í framkvæmdir og fjárfestingar. Þá gerir áætlun ráð fyrir því að skuldir verði lækkaðar um tæpar 70 milljónir.
Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2013 sem samþykkt var við síðari umræðu þann 13. desember s.l. Jafnframt var samþykkt langtímaáætlun til ársins 2016. Helstu kennitölur í áætlun eru;
* Heildartekjur sveitarsjóðs Borgarbyggðar og B-hluta fyrirtækja verða 2.796 milljónir króna á árinu 2013 en rekstrarútgjöld án fjármagnsliða verða 2.499 milljónir kr. Framlegð sveitarfélagsins er því um 15%. Fjármagnsgjöld er áætluð 290 milljónir kr.
* Samantekin rekstrarniðurstaða Borgarbyggðar á árinu 2013 er því jákvæð um 7 milljónir kr. Áætlað er að jafnvægi verði í rekstri sveitarfélagsins næstu þrjú árin eða út áætlunartímann.
*Veltufé frá rekstri er 219 milljónir kr. eða 7,8% af rekstrartekjum á árinu 2013.
*Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 4.692 milljónir kr. Afborganir langtímalána nema 298 milljónum og því lækka skuldir um tæpar 68 milljónir. Eigið fé sveitarfélagsins verður 1.409 milljónir kr. eða 23%.
*Áætlað er að fjárfesta fyrir 113 milljónir kr. í varanlegum rekstrarfjármunum. Eignir sveitarfélagsins verða í árslok 2013 að andvirði 6.102 milljónir kr.
*Heildarskuldir Borgarbyggðar í hlutfalli af tekjum verða samkvæmt áætlun 167% í árslok 2013 og hlutfallið lækkar áfram út áætlunartímann og verður 161% árið 2016. Skuldviðmið verður hins vegar 140% í árslok 2013 og verður komið niður í 137% árið 2016. Viðmið sveitarstjórnarlaga er að skuldaviðmiðið sé að hámarki 150%.
Nánari upplýsingar veitir Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri í síma 433-7100.