Efnistöku- og námusvæði sem tekin voru í notkun fyrir 1. Júlí 1999 og enn eru starfrækt voru á undanþágu frá framkvæmdaleyfi þar til nú 1. júlí 2012 samkvæmt ákvæði bráðabirgðalaga um náttúruvernd nr 44/1999. Það hefur verið auglýst á undanförnum árum m.a. í fréttablaði sveitarfélagsins og heimasíðu þess að fljótlega kæmi að þessu. Landeigendur/verktakar eru því beðnir að bregðast skjótt við og sækja um framkvæmdaleyfi hyggist þeir halda starfssemi áfram á gömlum námasvæðum.
Borgarbyggð vill auk þess vekja athygli landeigenda/verktaka á því að sækja þarf um framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins fyrir allri efnistöku á landi, úr ám, vötnum og af eða úr hafsbotni innan netlaga. Umsækjendum er bent á að fylla út þar til gert umsóknareyðublað, sem hægt er að nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins, og skila inn með fylgigögnum. Landeigendur mega þó taka efni til eigin nota svona u.þ.b. 500 rúmmetra á eigin landi, þar sem ekki gilda lög um efnistöku við ár og vötn. Sækja þarf um til Fiskistofu fyrir allri efnistöku í og við ár og vötn allt að 100 metra upp á land frá bakkanum, ásamt fylgiskjölum sem eru t.d. umsögn stjórnar veiðifélags og samþykki landeiganda. Þegar fyrirhugað er að hafa starfsstöð á námusvæðum þarf að sækja um starfsleyfi til heilbrigðiseftirlitsins skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun hafa beint því til sveitarfélaga að kaupa ekki jarðefni til verka á vegum sveitarfélagsins úr námum sem ekki uppfylla ákvæði um framkvæmdaleyfi frá og með áramótum.