Grýla sótti jólasveinana

desember 3, 2007
Kveikt var á ljósum á jólatré Borgarbyggðar á Kveldúlfsvelli í Borgarnesi í gær, á fyrsta sunnudegi í aðventu.Margt fólk var á svæðinu og veðrið var eins og best var á kosið. Steinunn Pálsdóttir og Gunnar Ringsted léku jólalög og boðið var upp á heitt súkkulaði sem yljaði hátíðargestum, en það voru 9. bekkingar í Grunnskólanum í Borgarnesi sem sáu um það.
Þrír jólasveinar höfðu slæðst of snemma til byggða af þessu tilefni, sungu jólalög og fræddu börnin og glöddu þau með jólaeplum. En sú sæla stóð ekki lengi yfir því Grýla kom á svæðið í öllu sínu veldi og rak þá hið snarasta upp í veglegan björgunarsveitarbíl þar skammt frá. Fór hann til fjalla og hefur ekki sést síðan.
 
Fyrstu myndina tók Elín Elísabet Einarsdóttir. Allar aðrar myndir með frétt tók Helgi Helgason.
 

Share: