Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa frá 2001 sameinast um árlegan norrænan skjaladag sem í ár var 14. nóvember. Af því tilefni er opnuð sameiginleg heimasíða: www.skjaladagur.is (smellt er á mynd af blómabeði í efstu röð).Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar tekur þátt í norræna skjaladeginum með framlagi á vef skjaladagsins um Kvenfélag Borgarness og þátt þess í uppbyggingu Skallagrímsgarðsins í Borgarnesi Af þessu tilefni hefur verið settur upp sýningarkassi í Safnahúsi með gögnum er varða sögu Kvenfélags Borgarness.
Þema skjaladagsins í ár á Íslandi er einmitt „Konur og kvenfélög“ en Félag héraðsskjalavarða ásamt Kvenfélagasambandi Íslands hefur staðið fyrir átaki á söfnun skjala kvenfélaga um land allt. Á vefnum má sjá sýnishorn af þeim skjölum sem kvenfélög víða um land hafa afhent á héraðsskjalasöfn auk ýmissa annarra skjala sem tengjast konum og hagsmunabaráttu þeirra.
Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfn séu tryggir vörslustaðir skjala og er fólk hvatt til að hafa sambandi við starfsfólk skjalasafna ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað á að gera við. Héraðsskjalasafnið í Borgarnesi er í Safnahúsi Borgarfjarðar að Bjarnarbraut 4-6 í Borgarnesi og héraðsskjalavörður er Jóhanna Skúladóttir: skjalasafn@safnahus.is
Ljósmynd: Konur í Kvenfélagi Borgarness í góðum hópi á ferðalagi. Ljósmyndari ókunnur.