
Borgarbyggð og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa gert með sér samstarfssamning um verkefnið Mál og læsi: Snemmtæk íhlutun í leikskólum. Markmið verkefnisins er að hámarka árangur allra barna hvað varðar málþroska og grunnþætti læsis og fyrirbyggja eða draga þannig úr líkum á að þau glími við lestrarerfiðleika seinna meir. Einnig er markmiðið að auka þekkingu og hæfni alls starfsfólks leikskólanna með það fyrir augum að öll börn fái íhlutun og áskoranir við hæfi í leik og starfi.
Af þessu tilefni var haldinn fræðsludagur fyrir allt starfsfólk í leikskólum Borgarbyggðar. Þar buðu þær Katrín Ósk Þráinsdóttir, Signý Gunnarsdóttir og Tinna Sigurðardóttir sérfræðingar frá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu upp á fræðsluerindi sem fjölluðu m.a. um lærdómssamfélög, málþroska, virkt fjöltyngi og málörvun. Þá afhentu þær leikskólunum veglegar gjafir sem eiga eftir að nýtast vel í verkefnavinnunni. Í lok fræðsludagsins var samstarfssamningur undirritaður af Freyju Birgisdóttur sviðsstjóra matssviðs hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Júlíönu Vilhjálmsdóttur verkefnastjóra í skólaþjónustu Borgarbyggðar.