Undanfarið hefur Slökkvilið Borgarbyggðar verið með fræðslu í leikskólunum fyrir elstu börnin. Eins og undanfarin haust er unnið með verkefnið Loga og Glóð. Rætt er við börnin um nauðsyn þess að brunavarnir séu í lagi bæði í leikskólunum og ekki síður á heimilum þeirra. Börnin fá möppu með verkefnum sem þau vinna í skólanum og heima með foreldrum sínum. Þegar þau eru búin að skila verkefnunum þá fá þau viðurkennigarskjöl frá slökkviliðinu, undirritað af slökkviliðsstjóra. Börnin eru einnig gerð að aðstoðarmönnum slökkviliðs og fá vesti merkt slökkviliðinu sem þau klæðast mánaðarlega og ganga um skólann sinn til að athuga hvort grunnatriði brunavarna séu ekki í lagi.
Þá hafa slökkviliðsmenn einnig aðstoðað grunnskólana við að halda rýmingaræfingar í skólunum. Það er nú árlegur viðburður að halda slíkar æfingar í öllum skólum Borgarbyggðar. Unnið er eftir rýmingaráætlun sem unnin hefur verið fyrir hvern og einn skóla. Meðfylgjandi myndir tók Haukur Valsson.