Bernd brúðuleikari er nú farinn í útrás til að svara kalli stjórnvalda um að færa heim dýrmætan gjaldeyri. Bernd er fullbókaður vestra í einar átta vikur, þar sem hann sýnir tvær til þrjár sýningar á dag, bæði í leikhúsum og í skólum um alla vesturströnd Kanada. Þessa vikuna hefur hann verið að sýna í Michael Jay Fox leikhúsinu í Vancouver, fyrir um 600 börn á hverri sýningu og viðtökurnar hafa verið hreint frábærar.
Bernd ferðast með valda þætti úr sýningu sinni Umbreytingu – ljóð á hreyfingu, en hann var síðast með hana á erlendri grund í febrúar síðastliðnum, þar sem hann sýndi nokkrar sýningar í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Von er á Bernd aftur til hins ylhýra í byrjun desember en þá byrja sýningar á jólaleikritinu um Pönnukökuna hennar Grýlu og verða meðal annars tvær sýningar í Landnámssetrinu fyrir jól.