
Í kjölfar mikilla vatnavaxta síðustu mánaða stórskemmdist brúin yfir Ferjukotssýki þann 15. janúar sl. Hvítárvallarvegur hefur gegnt lykilhlutverki í samgöngum í Borgarbyggð og var brúin yfir Ferjukotssíki mikilvæg samgöngutenging fyrir íbúa svæðisins. Því er brýnt að endurbygging brúarinnar hefjist tafarlaust til að koma samgöngum á svæðinu í lag og lágmarka óþægindi fyrir íbúa og daglega iðju þeirra.
Byggðarráð Borgarbyggðar skoraði á Innviðaráðherra á síðasta fundi sínum, að tryggja nauðsynlegt fjármagn til endurbyggingar brúarinnar og hvatti þar að auki Vegagerðina til að hefja framkvæmdir án tafar. Jafnframt hafði sveitarstjóra verið falið að senda þessa áskorun til þingmanna kjördæmisins, Innviðaráðherra og Vegagerðarinnar.
Vegagerðin brást hratt við og í kjölfarið bárust sveitarfélaginu upplýsingar um að búið sé að ná stálvirki brúarinnar á þurrt land og leggja mat á skemmdir og aðstæður. Niðurstöður sýna að stálvirkið er að mestu óskemmt og er unnið að framleiðslu á þeim hlutum sem upp á vantar. Búið er að gera boranir og fleira á svæðinu til þess að kanna mögulegar aðgerðir og verið er að hanna nýjar undirstöður byggðar á þeim rannsóknum.
Ákvörðun hefur verið tekin um að byggja nýja brú á stálstaurum með steyptum milli stöpplum. Hönnun mannvirkisins stendur yfir og stefnt er að því að hefja niðurrekstur á staurum í byrjun mars. Í kjölfarið verður farið í vinnu við stöppla, en gera má ráð fyrir að framkvæmdin taki nokkra mánuði og verði lokið á vormánuðum. Endanleg tímalína verður gefin út þegar hönnun mannvirkisins er fullkláruð.
Fjármagn til framkvæmdarinnar hefur verið tryggt og mun Vegagerðin leitast við að hafa framkvæmdartímann eins knappan og kostur gefst. Borgarbyggð mun áfram fylgjast náið með framvindu verksins og veita reglulegar uppfærslur um stöðu mála.