Annað kvöld, föstudaginn 10. október, keppir Borgarbyggð í spurningaþættinum Útsvari. Það eru þau Einar S. Valdimarsson sviðsstjóri fjármála við háskólann á Bifröst, Heiðar Lind Hansson sagnfræðinemi og Hjördís H. Hjartardóttir félagsmálastjóri sem keppa fyrir sveitarfélagið. Þau mæta liði Dalvíkurbyggðar, en í þeirra liði eru eftirtalin: Elín B. Unnarsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson og Magni Óskarsson.
Alls taka 24 sveitarfélög þátt í þættinum Útsvari þennan veturinn. Umsjónarmenn eru sem fyrr Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir og dómari og spurningahöfundur er Ólafur B. Guðnason. Úrslit í þættinum fram að þessu hafa farið eins og hér segir: Álftanes 66 – Fjarðabyggð 59, Hveragerði 68 – Norðurþing 74, Reykjanesbær 66 – Hafnarfjörður 74 og nú síðast Hornafjörður 67 – Seltjarnarnes 55.
Fólk er hvatt til að mæta sjónvarpssal til að fylgjast með útsendingu og hvetja sitt lið, en áhorfendur þurfa að vera mættir í Útvarpshúsið, Efstaleiti 1, kl. 19.45. Útsending hefst síðan strax eftir Kastljós. Þeir sem ekki geta lagt leið sína til Reykjavíkur til að hvetja fylgjast væntanlega með á sjónvarpsskjánum.
Áfram Borgarbyggð!!
Á meðfylgjandi mynd má sjá keppendurna Einar, Hjördísi og Heiðar. Ljósmyndari: Einar G. Pálsson.