Á núverandi skólaári er Grunnskólinn í Borgarnesi þátttakandi í þremur Erasmus+ verkefnum. Verkefnin eru alfarið unnin á ensku. Tvö verkefnanna eru í samstarfi við vinaskólann okkar í Tékklandi. Þema þeirra er annars vegar Well-being (velferð) og hins vegar 3D printing (þrívíddarprentun). Verkefnið er fyrir nemendur í 9. og 10.bekk.
Samstarfið er rafrænt, unnið á eTwinning vefnum, Padlet og á Teams fundum, auk hefðbundinna kennslustunda. Þessir nemendahópar munu fá tækifæri til að heimsækja hver annan í apríl og maí.
Einnig erum við í Erasmus+ verkefni með félaginu Association Sileyad í bænum Viens í Frakkalandi. Verkefni sem byggir á samstarfi nemenda í 8. – 10.bekk og foreldra þeirra við nemendahóp í Viens og foreldra þeirra. Þeir hópar munu vonandi fá tækifæri til að hittast í byrjun apríl í Borgarnesi og í Frakklandi í lok júní. En fram að því munu þeir skrifast á upp á gamla mátann. Ákveðið þema er í hverju pennavinabréfi, en hvor hópur sendir bréf einu sinni í mánuði. Þessu til viðbótar munu kennarar í bænum Tychy í Póllandi sækja okkur heim í maí. Munu dvelja hér í viku í „job shadowing“ verkefni.
Við erum afar þakklát Erasmus+ sjóðunum, sem stýrt er af Rannís hérlendis, fyrir stuðninginn. Einnig erum við þakklát þeim aðilum í héraði sem hafa tekið á móti okkur og gestum okkar. Saman náum við að láta drauma nemenda um að kynnast nemendum erlendis frá, og að sækja þá heim, rætast.