Ungir bændur stofna samtök

október 7, 2009
Þann 23. október næstkomandi verða Samtök ungra bænda hér á landi formlega stofnuð í Dalabúð í Búðardal. Markmiðið er að efla tengslanet ungra bænda á Íslandi, auka nýliðun í landbúnaði og styrkja þá ungu bændur sem fyrir eru.

Á www.bbl.is segir Helgi H. Hauksson, bóndi að Straumi í Hróarstungu, sem er í undirbúningshópi fyrir stofnun samtakanna að þau verði sameiginleg grasrótarsamtök fyrir ungt fólk í landbúnaði og einnig fyrir þá sem vilja búa og starfa á landsbyggðinni og starfa við ýmiskonar landbúnað.

„Það eru ungir bændur vítt og breitt um landið og eitt af því sem við viljum gera er að efla félagsleg tengsl eins og gert er í slíkum samtökum erlendis. Ef ekki verður unnið markvisst að því að efla nýliðun og styrkja þá sem fyrir eru er hætta á að veruleg fækkun verði í þessari atvinnugrein. Unga fólkið hefur ekki alltaf sömu hagsmuna að gæta eins og þeir sem eldri eru í atvinnugreininni. Við yngri bændurnir erum oft á tíðum skuldsettari og staðreyndin í dag er sú að nýliðun hefur verið lítil fyrst og fremst vegna þess að landverð hefur verið of hátt og afkoman í atvinnugreininni hefur heldur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir,“ útskýrir Helgi sem telur aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verða eitt aðalmál samtakanna til að byrja með.

Share: