Boðað hefur verið til Alþingiskosninga laugardaginn 30. nóvember næstkomandi. Hér í Borgarbyggð verður kosið á fjórum stöðum, í Lindartungu, Hjálmakletti í Borgarnesi, Þinghamri á Varmalandi og í íþróttahúsinu á Kleppjárnsreykjum. Er skipan í kjördeildir skv. C lið 47. gr. samþykkta um stjórn Borgarbyggðar nr. 1213/2022.
Undirkjörstjórnir. Sveitarstjórn kýs fjórar undirkjörstjórnir, eina fyrir hverja kjördeild. Í hverja undirkjörstjórn skal kjósa þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara. Undirkjörstjórnir fara með framkvæmd kosninga í viðkomandi kjördeild samkvæmt ákvæðum kosningalaga nr. 112/2021. Kjördeildir eru sem hér segir: a. Borgarneskjördeild fyrir íbúa á svæðinu milli Hítarár og Gljúfurár, íbúa Hvanneyrar og Andakíls. b. Þinghamarskjördeild fyrir íbúa í Stafholtstungum, Norðurárdal, Bifröst og Þverárhlíð. c. Lindartungukjördeild fyrir íbúa á svæðinu milli Hítarár og Haffjarðarár. d. Kleppjárnsreykjakjördeild fyrir íbúa Bæjarsveitar, Lundarreykjadals, Flókadals, Reykholtsdals, Hvítársíðu og Hálsasveitar
Kjörskrá og kosningaréttur:
- Kjörskrá er gerð samkvæmt 1 mgr. 27.gr. kosningalaga og eiga allir þeir kosningarétt sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum skv. 3. gr. kosningalaga: Miðast við skráningu lögheimilis og ríkisfangs í þjóðskrá 32 dögum fyrir kjördag:
- Íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili hér á landi
- Íslenskur ríkisborgari, búsettur erlendis skemur en 16 ár, sem náð hefur 18 ára aldri og hefur átt lögheimili hér á landi
- Íslenskur ríkisborgari, búsettur erlendis lengur en 16 ár, sem náð hefur 18 ára aldri og hefur ÁTT lögheimili hér á landi og er með gilda umsókn um að vera tekin á kjörskrá
Kjörskrá mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins frá og með 9. Nóvember. Eins geta kjósendur kannað hvar þeir eiga að kjósa inni á heimasíðu Þjóðskrár skra.is
Yfirkjörstjórn Borgarbyggðar mun auglýsa opnunartíma kjördeilda er nær líður kosningum.