Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson

september 23, 2013
Þriðjudaginn 24. september kl. 20.30 heldur dr. Úlfar Bragason fyrirlestur í Snorrastofu í Reykholti um Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar. Fyrirlesturinn er helgaður minningu Snorra Sturlusonar, sem veginn var í Reykholti 23. september árið 1241.
Um árabil hefur Snorrastofa minnst dánardægurs hins mikla rithöfundar og höfðingja með því að bjóða til fyrirlestrar um málefni, sem tengjast honum og samtíð hans með einum eða öðrum hætti.
Í ár eru liðin 800 ár síðan höfðinginn Hrafn Sveinbjarnarson var tekinn af lífi á Eyri við Arnarfjörð. Hrafns saga Sveinbjarnarsonar er ævisaga hans, rituð um 1250. Sagan er ein samtíðarsagna, varðveitt bæði sérstök og sem hluti af Sturlungu. Í erindi sínu mun Úlfar Bragason ræða samsetningu sögunnar, þá mynd sem sagan gefur af Hrafni og þær breytingar sem höfundur Sturlungu gerði á sögunni þegar hann skeytti henni við aðrar sögur í samsteypu sinni.

Úlfar Bragason er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Áður var hann forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals 1988-2006. Hann var gistikennari í norrænum fræðum við University of Chicago 1986-1987.
Úlfar lauk doktorsprófi frá Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1986. Doktorsritgerð hans fjallaði um frásagnarfræði Sturlungu. Hann hefur haldið fyrirlestra um Sturlunga sögu víða, bæði heima og erlendis, og birt fjölda greina um sagnasamsteypuna og sögur hennar. Árið 2010 kom út hjá Háskólaútgáfunni bók hans: Ætt og saga: Um frásagnarfræði Sturlungu eða Íslendinga sögu hinnar miklu.
 
Að venju er boðið til kaffiveitinga í hléi og umræða að þeim loknum. Aðgangseyrir er kr. 500.
 

Share: