Í síðustu viku hittust ungmenni í Mími ungmennahúsi og kusu stjórn næsta starfsárs í ungmennahúsið sitt sem jafnan gengur undir nafninu ungmennaráð og hefur það hlutverk að leiða innra starf. Fjölmörg ungmenni á aldrinum 16 – 25 ár mættu og kusu framkvæmdastjórn vetrarstarfins. Dagskrá hófst með grillveislu í boði Borgarnes kjötvara.
Formaður var kosin Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir og aðrir í stjórn með henni voru kosin Svanberg Rúnarsson, Arnar Þorsteinsson og Gunnhildur Lind Hansdóttir.
Í skemmtinefnd gáfu kost á sér þeir Ingi Björn Róbertsson og Halldór Gunnarsson.
Fráfarandi stjórn eru þökkuð góð störf.
Fram kom á fundinum að Guðmundur Skúli Halldórsson og Sigríður Dóra Sigurgeirsóttir höfðu setið fund NUF ( Landsamtök ungmennahúsa á norðurlöndum sem í eiga fulltrúar frá Íslandi, Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð ) fyrir Íslands hönd í Helsingi í Finnlandi í síðustu viku og var Skúli þar kjörinn forseti NUF.
Vélhjólaklúbburinn Raftar sem fá að nota ungmennahúsið á fundum sínum boðuðu komu sína og mættu fjölmargir. Ástæðan var sú að þeir vildu launa gott samstarf og styðja í verki við starf ungmennahússins með einhvejum hætti og mættu með forláta hljóðmixer þannig að tónlistarflutningur í húsinu ætti ekki að vera vandamál í framtíðinni.
Einnig komu þeir með túbador með sér og tók hann lagið við góðar undirtektir og vígði nýja mixerinn. Þetta kvöld var opið nokkuð lengur en vanalega og horft á úrslitaþátt í Supernova rokksöngvakeppninni og tókst þessi Magnavaka vel og stemning góð þótt einhverjir væru syfjaðir í fjölbrautarskólanum eða vinnunni sinni daginn eftir.
i.j.