Undanfarið hafa orðið brunar í og við húsnæði fólks í sveitarfélaginu vegna litíum rafhlaðna, sem er helsti orkugjafinn í rafhlaupahjólum barna og fullorðinna. Því er rétt að vekja athygli á hættunni sem fylgir þessum hjólum.
Að svo stöddu er ekki vitað um upptök þessa elda, það er hvort að það sé verið að fikta við hjólin til þess að auka hraða þeirra eða hvort um tæknilegar bilanir sé að ræða. Þessar rafhlöður geta sprungið og gefa frá sér mikinn eld og reyk sem er skaðlegur og mjög eitraður. Íbúar eru því hvattir til þess að kynna sér hvernig best er að fást við elda í litíum rafhlöðum inn á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Einnig er að finna upplýsingar um sérstök slökkvitæki til þess að fást við elda í litíum rafhlöðum inn á heimasíðu Ólafur Gíslason/Eldvarnamiðstöðin, oger.is.
Að lokum vill Slökkvilið Borgarbyggðar koma eftirfarandi á framfæri:
- Ekki undir neinum kringumstæðum hlaða hjólin innandyra í íbúðarhúsum, bílskúrum eða í geymslum fjölbýlishúsa þar sem mikill eldsmatur er í eigum íbúa.
- Best er að hlaða hjólin utandyra og spennubreytir varin fyrir rigningu.
- Ekki fúska við rafbúnað hjólsins með það fyrir augum að auka afl og hraða þess.
- Foreldrar sem og aðrir gefi gaum að því að börn og unglingar hlaði síma sína og tölvubúnað á borði eða úti í glugga þar sem loftar um hann en ekki ofaní rúmfötum, en nokkra elda í húsum má rekja til þess að slíkt var gert.
- Og þetta klassíska, hugum að reykskynjurum og slökkvitækjum.