Borgfirðingar að gera það gott

ágúst 11, 2011
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með fréttum undanfarið því íbúar og fyrirtæki í Borgarbyggð hafa víða látið að sér kveða og unnið til verðlauna á ýmsum sviðum.
Nýverið var greint frá því að Reyka vodki, sem framleiddur er af Víngerðinni í Borgarnesi, var valinn besti vodkinn í hinni árlegu samkeppni, International Wine and Spirits, nú á dögunum. Keppnin hefur verið haldin frá árinu 1969 og er ein sú virtasta í heimi. Þetta er mikil viðurkenning fyrir Víngerðina, en þeir hafa framleitt Reyka vodka í sex ár og vatnið sem notað er í framleiðsluna kemur úr lindinni við Grábrók.
Þá var Guðrún Bjarnadóttir handverkskona á Hvanneyri valin handverkskona ársins á árlegri handverkshátíð sem fram fór á Hrafnagili um síðustu helgi. Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu segir að Guðrún hafi lagt mikla vinnu og fagmennsku í viðhald gamalla aðferða og þekkingar við litun íslensku ullarinnar. Þennan grunn noti hún til þróunnar og nýsköpunar.
Borgarbyggð sendir starfsfólki Víngerðarinnar og Guðrúnu Bjarnadóttur hamingjuóskir.
 
 

Share: