Konur ganga til góðs

júlí 22, 2008
Borgfirskar konur undir stjórn Önnu Guðmundsdóttur á Borg á Mýrum hafa gengið til liðs við samtökin Göngum saman í átaki og fjáröflun til styrktar rannsóknum á krabbameini. Gengið er á mánudagskvöldum í sumar og hér sjást hressar konur sem gengu um 7 km í Borgarnesi í gærkvöldi.
Göngunni verður haldið áfam næsta mánudag, þann 28. júlí, á Hvanneyri. Hist verður við íþróttahúsið í Borgarnesi kl. 19:45 og sameinast í bíla, eða mætt við kirkjuna á Hvanneyri klukkan átta.
Fyrir tæpu ári voru stofnuð í Reykjavík samtökin Göngum saman, www.gongumsaman.is. Stofnendur þeirra eru konur sem með einum eða öðrum hætti tengjast Gunnhildi Óskarsdóttur sem þekkt er fyrir baráttu sína við og gegn brjóstakrabbameini. Upphaflegt markmið hópsins var að undirbúa sig fyrir Avon gönguna miklu sem fram fór í New York í september síðastliðnum. Um var að ræða eitt og hálft maraþon sem gengið var til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Úr þessu hefur sprottið grasrótarhreyfing sem leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar bæði til heilsueflingar og til að afla fjár til styrktar grunnrannsóknum á krabbameini í brjóstum. Stefnt er að því að taka þátt í mikilli styrktargöngu í Elliðaárdalnum þann 7. september n.k.
 
Ljósmynd með frétt: Guðrún Bjarnadóttir
 

Share: