Sveitarstjórn ályktar

júní 28, 2010
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum þann 23. júní síðastliðinn, ályktun um rannsókn á málefnum Sparisjóðs Mýrarsýslu, ályktun um starfsemi háskóla í Borgarbyggð og ályktun um samgöngumál
 
Varðandi rannsókn á málefnum Sparisjóðs Mýrasýslu, var svohljóðandi ályktun samþykkt samhljóða:
„Sveitarstjórn Borgarbyggðar ítrekar ályktanir fyrri sveitarstjórnar til Alþingis um að fram fari óháð úttekt á falli Sparisjóðs Mýrasýslu sem og öðrum sparisjóðum og minni bankastofnunum á Íslandi.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar fer fram á að þingmannanefnd um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem skipuð var og Atli Gíslason fer fyrir, taki beiðni þessa til umfjöllunar. Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bls. 24, bindi 1, að ekki hafi unnist tími til að taka vandamál sparisjóðakerfisins til umfjöllunar þótt þau hafi verðskuldað það og það sé undir Alþingi komið hvort þau verði tekin til sérstakrar rannsóknar.
Sparisjóður Mýrarsýslu var fyrsta bankastofnunin sem féll á Íslandi sumarið 2008. Sparisjóðurinn var að fullu í eigu Borgarbyggðar, það er ekki ofmælt að fall sjóðsins var mikið áfall fyrir íbúa í Borgarbyggð.
Það er nauðsynlegt að skýra aðdraganda og ástæður þess að sparisjóðakerfið á Íslandi hrundi og hvort mistök eða vanræksla hafi orðið til þess að starfsemi sjóðanna hafi á einhvern hátt farið á skjön við lög og reglur um fjármálastarfsemi á Íslandi.“
Varðandi háskóla í Borgarbyggð, var svohljóðandi ályktun samþykkt samhljóða:
“ Sveitarstjórn Borgarbyggðar skorar á stjórnvöld að standa vörð um starfsemi háskóla á landsbyggðinni og ráðast ekki í aðgerðir sem dregið geta úr starfsemi þeirra. Mikilvægi skólanna fyrir byggðaþróun er óumdeilt og hlutverk skólanna hefur aldrei verið mikilvægara en nú, þegar vinna þarf íslenska þjóð út úr þeim efnahagsþrengingum sem glímt er við.“
Varðandi samgöngumál var svohljóðandi ályktun samþykkt samhljóða:
“ Það er ljóst að fjárveitingar í samgönguáætlun til viðhalds og nýframkvæmda við vegi í Borgarbyggð eru í hróplegu ósamræmi við lengd vegakerfisins og ástand þess.
Vegakerfið í Borgarbyggð er afar víðfeðmt og víða orðin gríðarleg þörf á endurbótum og lagfæringum. Sveitarstjórn Borgarbyggðar krefst þess að stjórnvöld skipti fjármagni til vegaframkvæmda með sanngjörnum hætti og taki tillit til vegalengda og ástands vegakerfisins innan sveitarfélaga við úthlutun fjármagns til viðhalds og nýframkvæmda.“
 
 

Share: