Fornar gáttir – Minjarannsóknir undanfarinna ára í Reykholti

júní 24, 2008
Sett hefur verið upp í Snorrastofu sýning um fornleifarannsóknir undanfarinna ára í Reykholti. Sýningin er hönnuð af Sigríði Kristinsdóttur, grafískum hönnuði, en texta vann Guðrún Sveinbjarnardóttir, fornleifafræðingur og verkefnisstjóri fornleifarannsókna í Reykholti.
Sýningin, sem staðsett er í Finnsstofu inn af Safnaðarsal Reykholtskirkju, verður opnuð formlega laugardaginn 28. júní kl. 18:00.
Fornleifa í Reykholti er getið snemma á 19. öld, þegar skoski ferðalangurinn Ebenzer Henderson lýsir í ferðabók sinni því sem hann telur vera leifar af virki á staðnum. Túlkun hans á án efa rætur í frásögn Sturlungasögu frá 13. öld. Í kirkjugarðinum fannst steinkista, með leifum af rauðu efni, þegar gröf var tekin þar, einnig hefur fundist legsteinn með rúnaletri. Byggingarframkvæmdum í tengslum við nýja skólahúsið, sem reist var á árunum 1929-31, fylgdi síðan hrina af fornleifafundum, sem einungis að hluta til voru rannsakaðar. Markvissar rannsóknir hófust fyrst árið 1987 með könnunarskurðum og fornleifauppgreftri á hluta af bæjarhólnum, næstu tvö sumrin. Rannsóknir hófust svo aftur 1998 og stóðu yfir til ársins 2007 í 1-2 mánuði hvert sumar. Fyrri hluta þessa tímabils var hluti af gamla bæjarstæðinu rannsakaður, og einnig fannst smiðja undir gömlu timburkirkjunni. Á seinni hluta uppgraftartímabilsins fóru fram rannsóknir á kirkjustæði því sem kirkjur stóðu á í Reykholti fram til 1886, þegar timburkirkja var byggð á nýjum stað.
 

Share: