Sumarstarf fyrir börn í Borgarbyggð

maí 6, 2014
Sumarstarf fyrir börn og unglinga í Borgarbyggð verður með fjölbreyttum hætti nú líkt og undanfarin ár.
 
Vinnuskólifyrir börn fædd 1998 – 2000 er starfræktur yfir sumartímann. Nemendum stendur til boða vinna í 5 vikur á 7 vikna tímabili (frá 3. júní til 18. júlí). Unnið verður fjóra daga í viku, frí á föstudögum. Verkstjóri Vinnuskólans er Sigurþór Kristjánsson (Sissi).
Helstu verkefni Vinnuskólans eru:
· Grænn hópur sem sér um opin svæði, almenn þrif og tilfallandi verkefni.
· Vinna í leikskólunum Klettaborg og Uglukletti í Borgarnesi, Andabæ á Hvanneyri eða Hnoðrabóli í Reykholtsdal.
· Vinna í Óðali og á ýmsum námskeiðum í sumarstarfi barna í 1.-7. bekk.
· Vinna við Skallagrímsvöll og í Skallagrímsgarði
 
Afreksfólk á sviði íþrótta og/eða tómstunda getur sótt um styrk til að geta stundað afreksgrein sína yfir sumarið í stað hefðbundinnar vinnu í Vinnuskólanum.
Umsóknir berist Ásthildi Magnúsdóttur fræðslustjóra í Ráðhúsi Borgarbyggðar.
 
Sumarstarf fyrir börn fædd 2001 – 2007 verður í boði frá og með 3. júní til og með 8. júlí frá klukkan 8-16. Í boði verða námskeið af ýmsum toga, svo sem smíðavöllur, íþróttir, dans, leikir, leikskólaheimsóknir, vinnustaðaheimsóknir, vettvangsferðir og fleira. Námskeiðin og skráning í þau verða auglýst nánar um miðjan maí. Umsjón með sumarstarfinu hefur Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir starfsmaður Óðals og nemi í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands og henni til aðstoðar verða nemendur og flokksstjórar úr Vinnuskólanum. Staðsetning er ekki endanlega ákveðin en ljóst að hún verður annað hvort í Óðali, Tómstundaskólanum eða Grunnskólanum í Borgarnesi.
Vonast er til að í boði verði námskeið á vegum ungmennafélaga fyrir nemendur á starfssvæði Grunnskóla Borgarfjarðar. Námskeiðin og skráning í þau verða auglýst nánar um miðjan maí.
Brú milli skólastiga í Borgarnesi fyrir börn fædd 2008 sem hefja grunnskólagöngu í haust verður í boði að loknu sumarleyfi leikskólanna, frá 7. til 21. ágúst frá klukkan 8-16. Starfið fer fram í Tómstundaskólanum við Skallagrímsgötu 7. Markmiðið er að búa börnin betur undir grunnskólagöngu með því að kynna þeim umhverfi grunnskólans og að takast á við aukna ábyrgð. Jafnframt gefur þetta börnum úr Klettaborg og Uglukletti tækifæri til að kynnast betur fyrir upphaf skólagöngu. Umsjón með starfinu hefur Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir og henni til aðstoðar verða starfsmenn úr leikskólunum og Tómstundaskólanum. Leikskólastjórar munu senda skráningarblöð heim með börnunum á næstu dögum.
Börn í leikskólunum Andabæ og Hnoðrabóli eru velkomin í leikskólana sína að loknu sumarleyfi fram að skólasetningu grunnskólans. Skráning er hjá viðkomandi leikskólastjóra.
Nánari upplýsingar veitir undirrituð frá og með 14. maí í síma 433-7100 eða í tölvupósti asthildur@borgarbyggd.is.
Með sumarkveðju,
Ásthildur Magnúsdóttir fræðslustjóri
 

Share: