Fréttatilkynning frá Slökkviliði Borgarbyggðar og Brunavörnum Suðurnesja

apríl 24, 2013
Fimmtudaginn 18. apríl s.l. voru undirritaðir í Ráðhúsi Borgarbyggðar í Borgarnesi tveir samningar, annarsvegar um aukið samstarf og gagnkvæma aðstoð við slökkvistarf og mengunaróhöpp, hinsvegar yfirlýsing um samstarf slökkviliðanna vegna þjálfunar slökkviliðsmanna. Samningana undirrituðu þeir Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja fyrir þeirra hönd og Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar fyrir hönd slökkviliðs Borgarbyggðar.
Stutt er síðan þeir félagar Bjarni K. Þorsteinsson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar og Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja hófu viðræður og undirbúning að þeim gjörningi sem nú er orðin að veruleika.
Þar er einlæg von beggja samningsaðila að samningurinn um gagnkvæma aðstoð megi verða til þess að efla og styrkja slökkviliðin bæði ef til stóratburða kæmi á starfssvæðum slökkviliðanna hvort heldur sem um eldsvoða væri að ræða eða viðbrögð við mengunaróhappi.
Í framtíðinni munu slökkviliðsmenn úr Borgarbyggð eiga vísa fræðslu og æfingaaðstöðu með liðsmönnum Brunavarna Suðurnesja á æfingasvæði þeirra í Reykjanesbæ sem er til mikillar fyrirmyndar og ennfrekari uppbygging fyrirhuguð á svæðinu í nánustu framtíð.
Þess má einnig geta að æfingasvæði BS er með gilt starfsleyfi sem slíkt og liðsmenn BS hafa einnig annast kennslu og námskeiðahald fyrir slökkviliðsmenn í samvinnu við starfsmenn Mannvirkjastofnunar.
Sárlega hefur skort trygga og viðeigandi aðstöðu í Borgarbyggð þar sem hægt væri að þjálfa slökkviliðsmenn markvisst meðal annars í heitri reykköfun en afar mkilvægt er að reykkafarar geti þjálfað sig við sem raunverulegastar og bestar aðstæður og með því tekist betur á við erfitt, hættulegt og krefjandi starf sitt. Með samstarfi við suðurnesjamenn má segja að miklum áfanga hafi verið náð varðandi þjálfunarmál.
Á meðfylgjandi mynd sem tekin var við undirritunina eru efirtaldir frá vinstri talið.
Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri BS, Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar, Bjarni K. Þorsteinsson slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar og Steinar Hallgrímsson framkvæmdastjóri.
Bjarni K. Þorsteinsson
Jón Guðlaugsson

Share: