Í dag, síðasta vetrardag, verður ný vatnsveita tekin í notkun í Reykholtsdal. Veitan er orðin langþráð þar sem þurrkarnir síðustu sumur hafa valdið vatnsskorti í dalnum. Skrúfað verður frá brunahana við slökkvistöðina í Reykholti klukkan 16 á morgun, miðvikudag, að viðstöddum Páli S. Brynjarssyni sveitarstjóra Borgarbyggðar og Bjarna Bjarnasyni forstjóra Orkuveitunnar. Vatnsveitan eflir líka brunavarnir í Reykholti, þar sem varaeintakasafn Þjóðarbókhlöðunnar er að finna.
Eftir mikla leit að fullnægjandi vatnsbóli fyrir Reykholt og Kleppjárnsreyki, var ákveðið að virkja vatnsból við mynni Rauðsgils og leggja 4,4 kílómetra langa aðveitulögn milli Rauðsgils og Reykholts. Raunar er vatn víða að finna í dalnum en það er á mörgum stöðum blandað jarðhita. Lítil dælu- og stjórnstöð var byggð í grennd við vatnstökustaðinn. Áður var búið að tengja saman vatnsveiturnar í Reykholti og á Kleppjárnsreykjum til að geta miðlað vatni þar á milli. Engu að síður hefur það gerst hvað eftir annað síðustu sumur, sem hafa verið afar þurrviðrasöm, að keyra hefur þurft vatn á tankbílum í miðlunartank í Reykholti.
Með því að nýja vatnsveitan er tekin í notkun gerist þessa ekki lengur þörf og aðgangur íbúa Reykholtsdals að vatni til neyslu og brunavarna á að vera tryggur. Við þessi tímamót verður lítil athöfn í Reykholti þar sem skrúfað verður formlega frá nýju veitunni og Snorrastofa býður íbúum Reykholtsdals í kaffi á eftir.