Skeifudagur Grana verður haldinn hátíðlegur í glæsilegri hestamiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands að Mið-Fossum á sumardaginn fyrsta. Grani er hestamannafélag nemenda við Landbúnaðarháskóla Íslands. Dagskráin hefst kl. 12:30. Þennan dag sýna nemendur í hrossarækt við LbhÍ afrakstur vetrarstarfsins í reiðmennsku og frumtamningum.
Keppt verður um Gunnarsbikarinn, sem gefinn er af Bændasamtökum Íslands í minningu Gunnars Bjarnasonar, fyrrum hrossaræktarráðunauts og kennara á Hvanneyri. Ennfremur verður Morgunblaðsskeifan afhent þeim nemenda LbhÍ sem stendur sig best í reiðmennsku- og frumtamninganámi vetrarins. Kennarar í vetur voru Reynir Aðalsteinsson og Jakob Sigurðsson.
Keppt verður um Gunnarsbikarinn, sem gefinn er af Bændasamtökum Íslands í minningu Gunnars Bjarnasonar, fyrrum hrossaræktarráðunauts og kennara á Hvanneyri. Ennfremur verður Morgunblaðsskeifan afhent þeim nemenda LbhÍ sem stendur sig best í reiðmennsku- og frumtamninganámi vetrarins. Kennarar í vetur voru Reynir Aðalsteinsson og Jakob Sigurðsson.
Á liðnu hausti hófst nám í reiðmennsku á vegum endurmenntunardeildar LbhÍ og hlaut verkefnið nafnið Reiðmaðurinn. Reynir Aðalsteinsson er aðalkennari og hugmyndasmiður þessa náms. Hann hefur nú gefið farandbikar sem nemendur í Reiðmanninum munu keppa um árlega og á Skeifudaginn mun fara fram fyrsta úrslitakeppni um Reynisbikarinn.
Reynir mun kynna og sýna uppsetningu að nýrri töltkeppni sem hann hefur verið að þróa. Einnig verða margvísleg skemmtiatriði milli þess sem nemendur koma fram og sýna afrakstur vetrarstarfsins.
Að lokum má geta þess að hestamannafélagið Grani stendur fyrir happdrætti þar sem dregið verður um fjölda glæsilegra folatolla.
Fyrir þá sem ekki eru staðkunnugir: Ekið er upp veg nr. 50 (Borgarfjarðarbraut) frá þjóðvegi nr. 1, sunnan við Borgarfjarðarbrú hjá Borgarnesi. Áfram er haldið yfir Andakílsárbrú og beygt til hægri inn á veg nr. 508. Mið-Fossar eru skammt frá vegamótunum til vinstri handar. Mið-Fossar eru u.þ.b. 12 km frá þjóðvegi nr. 1.