Hjálparsími Rauða krossins – 1717

mars 10, 2014
Hálparsíminn sem úrræði í íslensku samfélagi
Þegar mikið mæðir á og fólk hefur engan til að tala við um sín hjartans mál í trúnaði er Hjálparsími Rauða krossins ætíð til staðar. Hjálparsíminn hefur staðið vaktina fyrir þá sem líða illa frá árinu 2004 og eru þrautþjálfaðir sjálfboðaliðar hans alltaf á vaktinni og tilbúnir að veita sálræna aðstoð og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru.
Hjálparsíminn vill minna landsmenn á þann stuðning sem hann veitir í gegnum númerið 1717. Hjálparsíminn er fyrir alla þá sem þurfa að ræða málin en einkunnarorð hans eru hlutleysi, skilningur, nafnleysi og trúnaður. Síminn er opinn allan sólarhringinn, allt árið um kring og er gjaldfrjáls. Það birtist ekki á símareikningnum að hringt hafi verið í 1717. Á síðasta ári tók Hjálparsíminn á móti tæplega 15 þúsund símtölum.
 
Meginstarf Hjálparsímans er að hlusta og vera til staðar fyrir fólk í þrengingum. Einnig eru veittar upplýsingar um hvert fólk geti leitað til þess að fá aðstoð hjá sérfræðingum við sínum vandamálum – hvort sem um sé að ræða félagsleg eða sálræn vandamál.
Þeir sem hringja í Hjálparsímann eru einstaklingar sem þurfa að ræða málin (oft eru það einstaklingar sem eiga hvorki fjölskyldu né vini sem þeir geta leitað til), stríða við geðsjúkdóma eða aðra króníska sjúkdóma, eru einmanna og þurfa andlega upplyftingu eða stuðning, hafa lent í áfalli eða áföllum, stríða við þunglyndi og í alvarlegustu tilfellunum eru það einstaklingar sem hafa misst vonina og eru í sjálfsvígshugleiðingum.
Þeir sjálfboðaliðar og starfsmenn sem svara í símann fá viðamikla þjálfun í viðtalstækni og sálrænum stuðning með færum sérfræðingum. Einnig er þeim boðið reglulega upp á fræðslukvöld er tengjast sérstökum átaksvikum Hjálparsímans t.d. um greiðsluerfiðleika, átraskanir, kynhneigð, þunglyndi og heimilisofbeldi svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem svara í númer Hjálparsímans, 1717, hafa aðgang að rafrænni handbók þar sem bjargir um hin ýmsu mál er að finna. Til dæmis má nefna að nýjustu upplýsingar um hinar sérstöku aðstæður sem skapast hafa á fjármálamarkaðnum og hvert einstaklingar geta snúið sér í bjargráðum hafa verið settar þar inn.
Að lokum er rétt að ítreka að Hjálparsíminn er alltaf til staðar fyrir fólkið okkar í landinu, ekki er spurt um nafn né stöðu. Hlutverk sjálfboðaliða og starfsmanna Hjálparsímans er að vera til staðar, dæma ekki, hlusta af athygli og síðast en ekki síst að byggja upp von hjá brotnum einstaklingum.
Hjálmar Karlsson, verkefnastjóri
 

Share: