Stefna Borgarbyggðar um stuðning við nemendur tekur mið af alþjóðlegum samþykktum um skóla án aðgreiningar og að réttindi fatlaðs fólks séu höfð að leiðarljósi í allri stefnumörkun skólastarfs.
Skólaþjónusta mótast af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni barna og unglinga og virku samstarfi við foreldra. Í reglugerð nr. 444/2019 um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum kemur fram að hlutverk skólaþjónustu sé að veita stuðning við nemendur í leik- og grunnskólum og foreldra þeirra. Einnig að veita starfsfólki skóla og starfsemi þeirra stuðning. Skal þjónustan beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni er upp koma í skólastarfinu.
Markmið skólaþjónustunnar
- Að sinna forvörnum sem stuðla að farsæld nemenda.
- Bregðast við vanda nemenda með snemmtækri íhlutun og ráðgjöf með það að markmiði að nemendur fái kennslu og stuðning við hæfi í skóla án aðgreiningar.
- Að stuðla að því að þjónustan einkennist af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda.
- Að styðja á fjölbreyttan hátt við starfsemi og starfshætti leik- og grunnskóla og starfsfólk þeirra.
- Að veita stuðning við foreldra með ráðgjöf og fræðslu.
- Að tryggja viðeigandi túlkaþjónustu þegar þess er þörf.
- Að stuðla að samfellu og heildarsýn með því að tryggja góð tengsl leikskóla, grunnskóla og menntaskóla.