Þegar stofna á nýjar lóðir, skipta upp jörðum, eyða út eða sameina lóðir og lönd þarf að þinglýsa nýjum merkjum þess sem verið er að sýsla með. Til dæmis þegar stofnaðar eru nýjar lóðir eru þær teknar úr annarri eldri landareign og fá nýtt landeignanúmer og fasteignanúmer. Upprunalandið minnkar því sem nýrri landareign nemur.
Allir þeir landeigendur sem eiga merki að þeirri landareign sem verið er að breyta eða staðfesta mörk hennar, þurfa að skrifa undir að þeir séu samþykkir þeim hnitum og línum sem eru á uppdrætti.
Það þarf að tiltaka ýmsa þætti á lóðablöðum sem fylgja með þegar sveitarfélagið er beðið um eitthvað af ofangreindu og er farið ítarlegar í það í algengum spurningum á forsíðu undir skipulags- og byggingarmál.
Gott er að gera ráð fyrir 2-3 mánuðum fyrir ferlið og sótt er um í gegnum þjónustugátt Borgarbyggðar.
Nánari upplýsingar er einnig hægt að nálgast á vef Húsa- og mannvirkjastofnunar (HMS), Skráning fasteigna.
Til þess að stofna lóð þarf landeigandi að hafa tvennt:
- eyðublað fyrir stofnun landeignar
- hnitsettan uppdrátt af lóðinni.
Eyðublað fyrir stofnun landeignar, Umsókn um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá (svokallað F-550) er hægt að nálgast hér á netinu. Þar á að koma fram eftirfarandi upplýsingar:
- heiti upprunalandareignar (nafnið á landinu sem verið er að stofna nýja landeign úr)
- númer upprunalandareignar (landeignanúmer á landinu sem verið er að stofna nýja landareign úr – landeignanúmer eru 6 tölur en fasteignanúmer 7 tölur)
- sveitarfélag (Borgarbyggð)
- heiti nýrra landareigna (nafn á nýju lóðinni)
- fjöldi nýrra landareigna (fjöldi lóða sem verið er að stofna)
- mannvirki sem fylgja (ef mannvirki eiga að standa á lóðinni sem verið er að stofna er matshlutanúmer sett hér)
- greiðandi
- tengiliður
- undirskrift eiganda (undirskrift þeirra sem eiga landið sem verið er að taka lóðina úr)
Á uppdrætti þarf að koma fram:
- hnit af lóðinni
- texti sem segir: Tekið úr NAFN UPPRUNALANDAREIGNAR, landeignanúmer Lxxxxx
- lóðarheiti (nýja nafnið)
- stærð á lóðinni í fm
- setja línu í texta fyrir nýtt landeignarnúmer
- undirskrift mælingarmanns/hönnuðar lóðarblaðs*
- texti sem segir hver séu skekkjumörk í tæki
- hvaðan vatn er tekið
- sýna aðkeyrslu að lóðinni
- kvöð um umferðarrétt
* Ath. þarf að vera samþykktur merkjalýsandi (sjá reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024)
Ferlið: frá landeiganda/hönnuði til sýslumanns
Þegar umsókn er skilað inn með fylgigögnum þá er hún tekin fyrir af Skipulags- og byggingarnefnd Borgarbyggðar sem fundar einu sinni í mánuði, oftast fyrsta föstudag hvers mánuðar. Hægt er að fylgjast með hvenær á forsíðu heimasíðu Borgarbyggðar undir Fréttir og tilkynningar. Til þess að málið sé tekið fyrir á dagskrá þarf að skila inn öllum gögnum eigi síðar en á föstudeginum vikunni fyrir fund og merkjalýsandi þarf að hafa stofnað mál á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
Við samþykkt sveitarstjórnar er stofnun lóðar fylgt eftir af starfsmanni skipulagssviðs og samþykkt inni á vef HMS. Þar er stofnað nýtt fasteignanúmer og að lokum afhent inn á biðskrá sýslumanns í tilheyrandi sveitarfélag. Sýslumanni er þá sent undirritað lóðablað til þinglýsingar. Þegar búið er að þinglýsa lóðarblaði á nýstofnuðu lóðina og lóðina sem verið er að stofna úr, sendir starfsmaður sveitarfélagsins þinglýsta eintakið til landeiganda.
Ferlið getur tekið mislangan tíma allt eftir álagi á hverjum stað fyrir sig en einnig eftir því hvort einhverjir hnökrar koma upp eins og ef gögnin reynast ekki rétt eða þinglýsingarferlið er snúið. Því er gott að vera með öll tilheyrandi gögn sem þarf að þinglýsa strax í upphafi ferilsins til þess að takmarka biðtíma. Einnig að vera viss um að réttar upplýsingar séu á þeim skjölum sem skilað er inn í upphafi.