Sveitarfélagið Borgarbyggð er á Vesturlandi og er í alfaraleið. Þjóðvegurinn liggur í gegnum Borgarnes en þaðan liggja leiðir til allra átta, þ.e. þjóðvegurinn norður í land, vestur á firði, til Sæfellsness og suður til höfuðborgarsvæðisins og Suðurlands. Borgarbyggð er í um klukkutíma akstursleið eða 70 km fjarlægð frá höfuðborg Íslands.
Borgarbyggð er fremur ungt sveitarfélag en byggir á gömlum grunni þeirra hreppa sem tóku sig saman og stofnuðu Borgarbyggð 11. júní 1994 þegar Borgarnesbær, Hraunhreppur, Norðurárdalshreppur og Stafholtstungnahreppur sameinuðust. Árið 1998 bættust Álftaneshreppur, Borgarhreppur og Þverárhlíðarhreppur í hópinn. Í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2006 bættust Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur, Kolbeinsstaðahreppur við og gerðu Borgarbyggð að því sveitarfélagi sem það er í dag.
Borgarbyggð er um 4.926 ferkílómetrar að stærð, sem gerir það eitt af víðfeðmustu sveitarfélögum á Íslandi. Íbúar eru um 3.800 og dreifast nokkuð jafnt í þéttbýli og dreifbýli. Mörk sveitarfélagsins eru við Skarðsheiði í suðri og Haffjarðará í vestri og teygir það sig allt frá strönd upp að jöklum. Innan Borgarbyggðar eru eftirtalin svæði: Kolbeinsstaðahreppur, Hraunhreppur, Álftaneshreppur, Borgarhreppur, Borgarnes, Norðurárdalur, Stafholtstungur, Þverárhlíð, Hvítársíða, Hálsasveit, Reykholtsdalur, Flókadalur, Lundarreykjadalur, Bæjarsveit og Andakíll.
Mannlíf í Borgarbyggð
Í Borgarbyggð er öflugt atvinnulíf, blómlegur landbúnaður, víðtæk þjónusta og verslun ásamt fjölþættri þjónustu ríkis- og sveitarfélags á sviði heilsugæslu, félagsþjónustu og uppeldismála. Í sveitarfélaginu eru leikskólar, grunnskólar, tónlistarskóli, menntaskóli og tveir háskólar. Hér þrífst fjölbreytt íþrótta-, menningar- og tómstundastarfsemi og ríkur félagsauður sem kemur fram í framboði og þátttöku íbúa í öflugu lista-, menningar-, íþrótta- og samfélagsstarfi af öllu mögulegu tagi.
Fjölbreytt tónlistarlíf er á svæðinu og má þar fyrst nefna starfsemi Tónlistarskóla Borgarfjarðar og Tónlistarfélags Borgarfjarðar. Margir kórar, minni sönghópar og hljómsveitir eru starfandi í Borgarbyggð og má sem dæmi nefna Freyjukórinn, Reykholtskórinn, Karlakórinn Söngbræður og kirkjukóra.
Ýmsir klúbbar og félög eru starfandi á svæðinu og má þar nefna starfsemi kvenfélaga, Lionsklúbba, Kiwanis- og Rotaryklúbba o.fl.
Leiklist blómstrar undir merkjum ungmennafélaganna og hafa leiksýningar verið færðar upp í Logalandi í Reykholtsdal, Brún í Bæjarsveit og Lyngbrekku á Mýrum svo nokkuð sé nefnt.
Safnastarfsemi er öflug í héraðinu, í Safnahúsinu í Borgarnesi og Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri. Ýmsar sýningar og setur má einnig nefna eins og starfsemi Snorrastofu í Reykholti, Samgöngusafn Fornbílafélags Borgarfjarðar og Landnámssetrið. Auk þess má nefna verslanir Ljómalind í Borgarnesi og Ullarselið á Hvanneyri þar sem rammíslenskt handverk er í hávegum haft.
Fjöldi ferðamanna leggur leið sína til Borgarbyggðar til að nýta sér fjölbreytta afþreyingu og þjónustu. Þekkta sögustaði er að finna í Borgarbyggð og sagnahefðinni er víða gert hátt undir höfði. Þar er einn merkasti sögustaður landsins Reykholt, en þar bjó Snorri Sturluson á 13. öld. Borgarbyggð býr jafnframt yfir einstakri náttúrufegurð og mikilli fjölbreytni í landslagi. Í sveitarfélaginu eru náttúruperlur á borð við Eldborg, Hraunfossa, Einkunnir og Víðgelmi. Margar þekktar laxveiðiár eru í Borgarbyggð, s.s. Haffjarðará, Hítará, Langá, Norðurá, Þverá, Hvítá og Grímsá. Einnig kjósa margir að eiga sér frístundaheimili í Borgarbyggð og víða hefur byggst upp mikil frístundahúsabyggð.
Þéttbýlisstaðir
Borgarnes byggðist fyrst á 19. öld og er í fornum sögum kallað Digranes. Bæjarstæðið þykir einkar fallegt, þar sem skiptast á klapparholt og mýraflákar. Borgarness er fyrst getið í Egilssögu þar sem kistu Kveld-Úlfs rak á land. Í bænum eru nokkrir þekktir sögustaðir úr Egilssögu, s.s. Sandvík, haugur skalla-Gríms og Brákarsund. Í Borgarnesi búa nú um 2.000 manns og þar er blómlegt félags-, menningar- og atvinnulíf.
Hvanneyri er gömul landnámsjörð. Þar hefur verið starfræktur búnaðarskóli allar götur síðan 1889, og þar hefur Landbúnaðarháskóli Íslands nú aðalstarfsstöð sína. Þar er einnig rekið Ullarsel og Landbúnaðarsafn. Hvanneyri er í aðeins 16 km akstursfjarlægð frá Borgarnesi. Á Hvanneyri er leikskóli og grunnskóli fyrir yngsta skólastigið.
Bifröst er fallegt háskólaþorp í miðju Grábrókarhrauni þar sem öll helsta þjónusta við fjölskyldur er til staðar. Á Bifröst er leikskóli en grunnskólanemar sækja skóla á Varmalandi.
Varmaland er þéttbýliskjarni sem byggðist upp í kringum jarðhitasvæðið í Stafholtstungum. Þar var lengi starfræktur húsmæðraskóli en nú hefur gamla skólahúsinu verið breytt í glæsilegt hótel. Á Varmalandi er grunnskóli og íþróttamannvirki með sundlaug.
Kleppjárnsreykir er byggðahverfi í Reykholtsdal skammt frá Reykholti. Hverfið byggðist fyrst upp í kringum læknis- og skólasetur en þar er jafnframt að finna mikinn jarðhita. Á Kleppjárnsreykjum er bæði leikskóli og grunnskóli ásamt sundlaug. Steinsnar frá Kleppjárnsreykjum er Deildartunguhver, sem er vatnsmesti hver Evrópu og mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þar má m.a. baða sig náttúrulaugum sem opnaðar voru árið 2017 (Krauma).