Söngleikjadeild Tónlistarskóla Borgarfjarðar heldur upp á tuttugu ára afmæli deildarinnar með því að setja upp söngleikinn Oliver eftir Lionel Bart og verða sýningar í byrjun maí. Íslensk þýðing er eftir Flosa Ólafsson.
Nemendur í söngleikjadeildinni á vorönninni eru tuttugu og fjórir á aldrinum 7-12 ára. Theodóra Þorsteinsdóttir og Hanna Ágústa Olgeirsdóttir setja upp sýninguna, stýra tónlist og leik, en Jónína Erna Arnardóttir leikur með á píanó.
Tvær sýningar eru í boði:
- Föstudaginn 3. maí kl. 18:00
- Laugardaginn 4. maí kl. 13:00.
Að þessu sinni verður söngleikjasýningin í félagsmiðstöðinni Óðali í Borgarnesi.
Miðasala við innganginn og er aðgangseyrir kr. 1.000 fyrir fullorðna og kr. 500 fyrir grunnskólabörn, frítt fyrir leikskólabörn.
Tónlistarskóli Borgarfjarðar hefur sett upp sýningar með atriðum úr mörgum söngleikjum frá árinu 2004, eða frá því að skólinn fékk sitt eigið húsnæði. Flestar sýningarnar hafa verið settar upp í sal tónlistarskólans fyrir utan stóru afmælissýningarnar Sígaunabaróninn og Móglí. Síðustu tvo vetur hafa svo sýningarnar verið í sal Grunnskólans í Borgarnesi, Borgarneskirkju og nú í Óðali. Theodóra hefur skipulagt og sett upp allar þessar sýningar utan einnar sem Dagrún Hjartardóttir setti upp árið 2005.
Síðustu ár hefur leikstjóri einnig unnið með Theodóru, þannig að börnin hafa fengið góða kennslu í söng og leiklist. Á þessum tuttugu árum hafa píanóleikararnir Birna Þorsteinsdóttir, Jónína Erna Arnardóttir og Zsuzsanna Budai leikið með á hljóðfærið og leikstjórarnir sem hafa komið að sýningunum eru Ása Hlín Svavarsdóttir, Halldóra Rósa Björnsdóttir, Sigríður Ásta Olgeirsdóttir og Hanna Ágústa Olgeirsdóttir. Tónlistinni í Sígaunabaróninum stjórnaði Garðar Cortes og í Móglí spilaði band með sem var skipað kennurum skólans.
Þær sýningar sem skólinn hefur sett upp fyrir utan afmælissýningarnar eru: Hans og Gréta, Mjallhvít/Snjallhvít, Grenitréð, Litla ljót, Ávaxtakarfan, Fiðlarinn, Ronja ræningjadóttir, Bróðir minn Ljónshjarta, Skilaboðaskjóðan, Dýrin í Hálsaskógi, Litla stúlkan með eldspýturnar og Oliver. Sumir söngleikirnir hafa verið settir upp oftar en einu sinni, með nýjum flytjendahópi og engin sýning eins. Fjöldi barna og fullorðninna í sveitarfélaginu hafa tekið þátt í þessum sýningum sem er dýrmæt reynsla og upplifun.
Það er tilhlökkunarefni að sýna Oliver með þessum frábæru börnum í tilefni af tuttugu ára afmælinu.