Börnin mæta miðöldum í Reykholti

maí 14, 2019
Featured image for “Börnin mæta miðöldum í Reykholti”

Síðastliðinn miðvikudag 8. maí mættu 170 nemendur úr grunnskólum nágrennis Borgarbyggðar á barnamenningahátíð í Reykholti. Þetta voru miðstigsnemendur í Reykhólaskóla, Auðarskóla, Laugargerðisskóla, Grunnskóla Borgarness og Grunnskóla Borgarfjarðar ásamt kennurum sínum og leiðbeinendum. Frumkvæði og stuðningur við hátíðina kemur úr menningarhluta Uppbyggingarsjóðs Vesturlands.

 

Eftir sambærilega hátíð árið 2016 var ákveðið að bjóða miðstigsnemendum af Vesturlandi til hátíðar á þriggja ára fresti þannig að hver og einn komi einu sinni á námstímanum í sérstaka heimsókn í Reykholt eftir að hafa fengist við ævi og störf frægasta höfðingja og sagnaritara staðarins í námi sínu.  

 

Dagurinn hófst með því að nemendur kynntu hver fyrir öðrum ýmis skemmtileg og frumleg verkefni úr skólastarfinu sem gáfu til kynna að mikið hefur verið starfað í vetur og börnin vel að sér um málefnin. Þar má nefna hreyfimyndir með kyrrum og leiknum myndskeiðum, myndverk af ýmsu tagi, áþreifanlega muni eins og vatn úr Hvammsá í Dölum, bækur fyrir ungt fólk í dag, sem sækja efnivið í smiðju Snorra og alls kyns samantektir, sem gefa innsýn í ævi örlög hans. Eftir hádegishressingu setti sveitarstjóri Borgarbyggðar, Gunnlaugur Júlíusson, hátíðina í Reykholtskirkju og í kjölfarið steig Elfar Logi Hannesson á stokk og sýndi einleik sinn um Gísla Súrsson.

 

Að hátíðinni stóðu bæði heimamenn og aðkomumenn, sem sameinuðust um að hlúa að mikilvægum þætti skólastarfsins, að enda námsferlið með raunverulegri tengingu við efni og inntak námsins. Umfjöllun var um hátíðina í Landanum þann 12. maí sl. sem finna má á vef Ríkisútvarpsins.


Share: