Vel sóttur íbúafundur

apríl 2, 2019
Featured image for “Vel sóttur íbúafundur”

Síðasta fimmtudagskvöld, þann 28. mars, var haldinn íbúafundur í Hjálmakletti um framtíð Brákareyjar. Yfir fimmtíu manns mættu og líflegar umræður sköpuðust. Fulltrúar frá Teiknistofunni Landslagi, starfsfólk á umhverfis- og skipulagssviði Borgarbyggðar og íbúar unnu saman í hópum og ræddu um framtíðarmöguleika Brákareyjar. Margar og fjölbreyttar tillögur komu fram, en þátttakendur voru flestir sammála um að fyrsta skrefið væri að ráðast í allsherjar tiltekt í eyjunni.


 


Í lok fundarins var rætt um að halda opinn dag í Brákarey á vordögum þar sem fólki gæfist kostur á að skoða húseignir Borgarbyggðar og kynna sér starfsemina sem þar er stunduð. Búið er að gera úttekt á ástandi einstakra bygginga í eyjunni til að skýra heildarmyndina og opna fyrir möguleika á raunhæfu kostnaðarmati.


 


Tillögur sem fram komu á fimmtudaginn mun starfsfólk Teiknistofunnar Landslags nýta í áframhaldandi skipulagsvinnu fyrir svæðið. Drög að rammaskipulagi frá teiknistofunni verða kynntar fyrir íbúum á vormánuðum.


 


Fréttaskot Umhverfis-og skipulagssviðs nr. 10


Share: