2. fundur stýrihóps

febrúar 16, 2017

Mætt: Gunnlaugur A. Júlíusson, Geirlaug Jóhannsdóttir, Guðrún S. Hilmisdóttir, Lilja S. Ólafsdóttir, Linda Kristjánsdóttir, Pálmi Blængsson, Theodór Þórðarson, Freyja Þ. Smáradóttir, Guðrún María Harðardóttir og Jakob Guðmundsson. Kristín Gísladóttir boðaði forföll. Fundargerð ritaði Anna Magnea Hreinsdóttir.

Dagskrá:

  1. Facebook síða verkefnisins – Helga Margrét Friðriksdóttir kynnti facebook síðu verkefnisins sem heitir Borgarbyggð –  Heilsueflandi samfélag. Þar er að finna upplýsingar um helstu þætti verkefnisins. Einnig er þar að finna upplýsingar um þá hreyfingu sem er í boði fyrir íbúa Borgarbyggðar og hvenær æfingar fara fram. Mikilvægt að koma síðunni á framfæri og tengja við aðrar síður um Borgarbyggð. Rætt um að íþróttamiðstöðin í Borgarnesi setji einnig upp facebook síðu sem hægt er að setja inn upplýsingar um breytingar á æfingatíma, keppnir og aðra starfsemi í húsinu.

    1. Stöðumat. Á heimasíðu Embætti landlæknis er að finna upplýsingar um Lýðheilsuvísa sem eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar og áhrifaþætti þeirra. Vísarnir eru birtir eftir heilbrigðisumdæmum og þar má fá yfirsýn yfir stöðuna á Vesturlandi miðað við landið allt. Það auðveldar stýrihópnum að greina stöðuna í Borgarbyggð og meta hvar aðgerða er þörf. Dæmi um lýðheilsuvísa þar sem tölur fyrir Vesturland eru frábrugðnar tölum fyrir landið í heild.

  • Hlutfallslega fleiri fullorðnir nota virkan ferðamáta til vinnu/skóla.
  • Hlutfallslega færri börn í 6. bekk urðu fyrir einelti.
  • Hlutfallslega færri framhaldsskólanemar prófuðu kannabis sl. 12 mánuði.
  • Hlutfallslega færri fullorðnir neyta ávaxta og grænmetis.
  • Hlutfallslega fleiri framhaldsskólanemar drekka gosdrykki daglega.
  • Lægra hlutfall barna í 10. bekk hreyfir sig samkvæmt ráðleggingum.

Sveitarstjórn hefur tekið af skarið og stefnir á að efla heilsu og vellíðan meðal íbúa Borgarbyggðar. Mætti sveitarstjórn sýna gott fordæmi og halda fundi t.d. gangandi úti í náttúrunni.

Leikskólar hafa sótt um að gerast heilsueflandi leikskólar og vinna nú að því að uppfylla þau viðmið sem fylgja því með sérstaka áherslu á hreyfingu, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsu, fjölskyldu, nærsamfélag og starfsfólk.

Grunnskólar eru heilsueflandi og vinna reglulega að því að ná þeim viðmiðum sem þar eru sett fram.  Þeir vinna markvisst að því að efla heilsu nemenda og starfsfólks með aukinni hreyfingu, viðmið um gerð matar, bættri andlegri líðan nemenda og leitast við að gera betur með því að fylgjast með þessum þáttum, meta stöðuna og endurmeta aðgerðir.

Menntaskólinn er heilsueflandi framhaldsskóli og er lögð áhersla á hreyfingu nemenda í íþróttamiðstöðinni, en einnig í nágrenni skólans. Göngukortið Menntavegurinn var kynnt sem þarf að kynna betur m.a. fyrir íbúum Borgarbyggðar. Farið er eftir lýðheilsuviðmiðum varðandi næringu í skólanum og áhersla lögð á geðrækt, t.d. með heimsókn Hugrúnar og Ástráðs verkefnanna. Einnig er kennt um mannréttindi, lýðræði og sjálfbærni o.fl. Stuðst er við niðurstöður Rannsóknar og greiningar sem gefur góða mynd af stöðu mála. Niðurstöður eru kynntar á fundi með nemendum og foreldrum og áhersla lögð á að bregðast við og bæta það sem betur má fara. Stendur starfsfólki skólans til boða hreyfistyrkur og áhersla er lögð á að hafa ávexti og vatn aðgengilegt. Í kjallara skólans er hreyfisalur sem lítið er notaður.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur aðgang að gögnum úr Ískrá um m.a. grunnskólanemendur, hreyfingu og líðan þeirra. Gögnin er hægt að nýta til að gera sér betur grein fyrir því hvar aðgerða er þörf. Meðal annars kemur fram að um 12% barna á grunnskólaaldri í sveitarfélaginu eru í ofþyngd eða offitu.

Atvinnulífið hefur yfir að ráða mötuneyti á mörgum vinnustöðum. Þó eru margir starfsmenn sem nýta sér sjopputilboð og oft eru kex og kökur á boðstólum í kaffitímum fremur en ávextir og vatn. Eitthvað er um hreyfistyrki til starfsmanna og niðurgreiðir Borgarbyggð líkamsræktarkort fyrir starfsmenn sína. Spurning um að fyrirtæki/Borgarbyggð bjóði uppá heilsufarsmælingu/skoðun fyrir starfsfólkið sitt. Rætt um mikilvægi þess að móta vinnustaðamenningu sem leggur áherslu á hreyfingu og holla næringu. Slíkt tekur tíma.

Lögreglan hvetur liðsmenn sína til að hreyfa sig og geta þeir farið í hreyfitíma innan vinnutíma til jafns a við frítímahreyfingu.

Forvarnarhópur er að störfum í Borgarbyggð og fylgist hópurinn með stöðu mála í sveitarfélaginu. Hann hefur m.a. beitt sér gegn unglingadrykkju og eftirlitslausum partýum. Hópurinn hefur einnig lagt áherslu á styrkingu sjálfsmyndar, tölvunotkun og samskipti. Rætt um mikilvægi þess að skapa unglingamenningu í sveitafélaginu sem styður við heilbrigði og vellíðan. Einnig var rætt um böll og aðgang unglinga að þeim.

Aldraðir geta fengið sendan mat heim. Rætt um að sett séu viðmið um innihald matarins og næringargildi. Einnig hvaða  veitingar eru í boði í félagsstarfi aldraða. Oft er kex og brauð í boði fremur en ávextir. Nægt framboð er af hreyfingu, en spurning hvort aldraðir séu að nýta sér það sem í boði er. Rætt um bekki og göngustíga og aðgang aldraðra að íþróttamannvirkjum í dreifbýlinu.

Umhverfið þarf að hvetja til  hreyfingar og útivistar. Spurning um að auka aðgang íbúa að bekkjum og göngustígum og að aldraðir geti séð og farið á milli bekkja, t.d. á Borgarbrautinni. Lions hreyfingin hefur sýnt áhuga á því að gefa bekki. Nokkuð er um malarstíga og full þörf á að endurnýja göngustíga um þetta fallega umhverfi sem er í Borgarbyggð. Víða eru gangstéttir einnig illa farnar og illfærar.

  1. Íbúaþingið – rætt um að skipuleggja íbúaþingið í maí á næsta fundi nefndarinnar. AMH falið að hafa samband við Magnús Scheving.

Fleira ekki gert.

Fundi slitið kl.17.00

AMH


Share: