Hér má finna bæklinga um hugmyndir fyrir heimalestur fyrir hvert aldursstig. Hér er einnig að finna ýmsar upplýsingar um lestur og krækjur á myndbönd frá Menntamálastofnun.
Lestur samanstendur af fjölmörgum grunnþáttum og færni á hverju svið er mikilvægur liður í heildar lestrarfærni hvers barns.
Leikskóli
1.-4. bekkur
5.-7. bekkur
8.-10. bekkur
Hljóðkerfisvitund er yfirhugtak sem vísar til færni barns við að skynja hljóðræna uppbyggingu tungumálsins. Slök hljóðkerfis- og málvitund er talin aðalorsök lestrarvanda hjá 90% barna. Afar mikilvægt er að börnum sé strax frá unga aldri boðið markvisst upp á leiki og verkefni til örvunar hljóðkerfis- og málvitundar og að þeim sem virðist eiga í erfiðleikum sé sinnt sérstaklega. Hljóðkerfisvitundarþjálfun hefst strax á leikskóla og heldur áfram í yngstu bekkjum grunnskóla. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að markviss þjálfun hljóðkerfisvitundar á leikskólaaldri skilar sér í betri árangri í lestrarnámi fyrir börn í áhættu um lestrarörðugleika.
- Að ríma
- Að klappa atkvæði
- Að greina einstök hljóð í orðum
- Að skipta út hljóðum í orðum
Lesfimi felur sér í færni til að lesa texta hratt, rétt og fyrirhafnarlaust og með áherslum sem eiga við efnið. Lesfimi hefur jafnframt áhrif á skilning.
Lesskilningur er flókið ferli sem tekur til margra þátta. Hann þróast strax frá unga aldri því er mikilvægt að efla undirstöðuþætti hans sem fyrst og vinna markvisst með auðugan orðaforða, setningar og ályktunarhæfni. Orðaforði er undirstaða mál- og lesskilnings. Lesskilningur er færni til að tengja upplýsingar úr lesefninu við það sem lesandinn veit fyrir og skapa þannig nýja þekkingu.
Orðaforði er mikilvæg undirstaða læsis. Orðaforði er ein meginforsenda málskilnings og lesskilnings. Orðaforði hefur einnig áhrif á leshraða því fleiri orð sem barnið þekkir í texta því hraðar og áreynslulausar les það. Mikilvægt er því að efla orðaforða markvisst í leikskóla og út alla skólagöngu. Nemendur sem hefja lestrarnám sitt með slakan orðaforða og málskilning eiga erfiðara með að skilja texta og lesa því oft minna en nemendur sem standa vel á því sviði. Orðaforði og sjálfvirkni í lestri skipta mestu fyrir góðan lesskilning.
Hæfni til að hlusta þarf að vera til staðar áður en lestrarkennsla hefst til að nemandi geti tileinkað sér hljóðkerfi tungumálsins og nauðsynlegan orðaforða. Hlustun er stór þáttur í mannlegum samskiptum. Hún er lærð og því mikilvægt að þjálfa börn í að hlusta. Mikilvægt er að nemendur læri að hlusta á aðra og taka tillit til skoðana þeirra í umræðum og rökræðum (virk hlustun).
Færni barns í að tengja hljóð við staf af öryggi og síðar að tengja saman stök hljóð í orðbúta og orð.
Dæmi um leiðir: Strax í leikskóla er byrjað að kynna hljóð og bókstafi fyrir börnunum á markvissan hátt í gegnum leik. Ritmál er haft sýnilegt í umhverfinu, spiluð spil, farið í stafaleiki og unnið með bókstafi á fjölbreyttan hátt. Orð flokkuð eftir fyrsta eða síðasta hljóði, lesin stafahús, stafablöð og textar. Unnið er að samtengingu hljóða og gefinn gaumur að því að kenna sérstaklega lestur samhljóðasambanda. Markvisst er unnið með ritun sem þjálfunarþátt í umskráningu.